Prestsbakkakirkja á Síðu


prestbakkakirkjan
prestbakkakirkjan
prestbakkakirkjanprestbakkakirkjan
prestbakkakirkjanprestbakkakirkjan
prestbakkakirkjanprestbakkakirkjan
prestbakkakirkjanprestbakkakirkjan
prestbakkakirkjan

Um miðja 19. öld stóð á Kirkjubæjarklaustri gömul og illa farin timburkirkja. Herjaði á umhverfi hennar mikið sandfok sem gróf undan búskap á staðnum. Var því sú ákvörðun tekin 1855 að flytja skyldi kirkjustaðinn að Prestsbakka en þar hafði um langt skeið verið prestsbústaður. Ekki var þó hægt að flytja sjálfa kirkjuna sökum þess hve illa hún var farin og var því tekin ákvörðun um að byggja hér nýja kirkju.

Til verksins var fenginn Antóníus Nielsen frá Danmörku en hann kom þó aldrei að byggingu kirkjunnar. Í hans stað var ráðinn Jóhannes Jónsson, trésmíðameistari úr Reykjavík. Heimamenn aðstoðuðu hann síðan við smíðina, meðal annara Sigurður Sigurðarsson frá Breiðabólstað. Allt efnið í kirkjuna kom tilsniðið frá Danmörku en burðarvirkið er þó allt úr íslenskum rekavið. Upphaflega var sökull kirkjunnar grjóthlaðinn en er nú steinsteyptur.

Fyrstu árin var kirkjan öll timburklædd og bikuð. Slík kæðning entist illa og 1904 var kirkjan öll orðin járnklædd. Dagana 28.-29. desember 1908 geisaði svo á Suðurlandi aftakaveður með miklu eignatjóni. Í þessu veðri skekktist Prestsbakkakirkja og sjást ummerki veðursins enn á eystri enda suðurhliðar kikjunnar.

Prestsbakkakirkja er einstök íslenskra kirkna þar sem prédikunarstóllinn er staðsettur í miðjum kórnum, beint fyrir framan altarið. Má ætla að hér gæti áhrifa frá hallarkirkjunni (Kristjánsborgarhöll) í Kaupmannahöfn þar sem um sömu staðsetningu á prédikunarstól er að ræða.

Tvær altaristöflur eru í kirkjunni. Sú minni hefur verið í kirkjunni frá upphafi. Hún er eftir dönsku listakonuna Lucie Marie Ingermann og var máluð 1854. En Luice Marie var kona danske sálmaskáldsins Bernhards Severins Ingemann hver m.a. samdi textan við jólasálminn góðkunna ‘Fögur er foldin’. Er þetta eina taflan hér á landi eftir þá merku listakonu. Á 50 ára afmæli kirkjunnar kom stærri altaristaflan og var sett upp fyrir ofan altarið. Hún er frá árinu 1902 máluð af Anker Lund í Danmörku.

Skírnarfonturinn er útskorinn af Ríkharði Jónssyni og var gefin til kirkjunnar á 150 ára afmæli hennar af kvenfélögum Kirkjubæjar- og Hörgslandshrepps. Veggljósin sem þrjú eru hvoru megin í kirkjunni eru einnig eftir Ríkharð Jónsson og gefin af sama tilefni.

Tveir steindir gluggar eru innst í kirkjunni. Þeir eru eftir Leif Breiðfjörð og voru gefnir í hana 1979 af afkomendum Bjarna Bjarnasonar og Helgu Pálsdóttur í Hörgsdal. Pípuorgel nýlegt er í kirkjunni, 9 radda og telst afburðagott.

Þegar gengið er inn í Prestsbakkakirkju gefur að líta hina einstöku listskreytingu hennar. Það var Einar Jónsson frá Fossi í Mýrdal sem málaði kirkjuna 1910 í tilefni að 50 ára afmæli hennar. Má þar meðal annars benda á englamyndina á kórgaflinum yfir altarinu. Skreyting Einars hefur elst vel með kirkjunni. Fyrir hundrað ára afmæli kirkjunnar var gert töluvert við hana og voru þá hjónin Gréta og Jón Björnsson fengin til þess að mála hana. Þau létu þó skreytingu Einars halda sér og löguðu aðeins það sem látið hafði á sjá. Gréta málaði hins vegar prédikunarstólin með táknmyndum guðspjallamannanna.

Úr gömlu kirkjunni á Kirkjubæjarklaustri er hér að finna koparhjálm með 12 ljósaliljum. Hann er sennilega frá því á 17. öld. Hinn ljósahjálmurinn er hins vegar frá 1859 og kom ásamt ýmsum öðrum munum kirkjunnar frá Danmörku.

Prestsbakkakirkja á Síðu var vígð 21. apríl 1859 á skírdegi sem þá bar einnig upp á sumardaginn fyrsta.

Hér er öllum velkomin að ganga um eða eiga hljóða stund. Kirkjugestir eru beðnir um að sýna kirkjunni og umhverfi hennar virðingu og helgi.

Kirkjuvörður er frú Sigrún Böðvarsdóttir, Prestsbakka
Sóknarprestur er sr. Bryndís Malla Elídóttir, Kirkjubæjarklaustri